Bjarni Ólafsson AK kemur að landi með fyrsta loðnufarm vertíðarinnar. Ljósm. Þorgeir Baldursson
Loðna í lest Bjarna Ólafssonar AK. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar laust fyrir hádegi með fyrsta loðnufarm vertíðarinnar. Aflinn er um 1600 tonn og fékkst hann í átta holum um 45 mílur norður af Melrakkasléttu. Þorkell Pétursson skipstjóri segir að fyrsti túr á loðnuvertíð feli ávallt í sér tímamót auk þess sem þetta hafi verið hans fyrsta veiðiferð í skipstjórastóli á loðnuveiðum. Þorkell segir að eitthvað sé að sjá af loðnu á þessum slóðum. „Nánast öll veiðin á sér stað yfir daginn. Menn draga yfir nóttina en það kemur afar lítið út úr því. Stærsta holið okkar var rúmlega 400 tonn. Loðnan er fín, en stærð hennar er svolítið misjöfn eftir holum – frá 36 og upp í 48 stykki í kílóinu. Menn eru fullir bjartsýni hvað varðar vertíðina og vonandi fer loðnan brátt í hefðbundið göngumynstur. Það brældi í gær og þess vegna var ákveðið að fara í land þó við værum ekki alveg búnir að fylla. Það verður losað og síðan haldið beint út aftur. Menn geta ekki leyft sér að slappa af á vertíð eins og þessari. Það eru sko næg verkefni framundan,“ segir Þorkell.

Af miðunum var það að frétta í morgun að allur loðnuflotinn var búinn að kasta enda brælan gengin niður. Börkur, Beitir og Barði eru á miðunum og eru öll skipin þegar komin með góðan afla.