Vilhelm Þorsteinsson EA að landa fyrsta makrílfarminum sem berst til Neskaupstaðar á vertíðinni. Ljósm. Smári Geirsson

Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með fyrsta makrílfarm vertíðarinnar sem þangað berst. Aflinn var 1.270 tonn. Vilhelm er í veiðisamstarfi með Síldarvinnsluskipunum Barða, Beiti og Berki auk Margrétar EA og kom aflinn frá öllum þessum skipum. Heimasíðan ræddi við Birki Hreinsson, skipstjóra á Vilhelm, og spurði fyrst hvernig honum finndist vertíðin fara af stað. „Hún fer afar rólega af stað. Þessi afli kemur allur úr Smugunni en þar hefur lítið orðið vart við makríl. Þetta er um 400 gramma fiskur og hann er fullur af átu. Nú eru skipin komin inn í íslenska lögsögu og eru að veiða þar en aflinn er töluvert síldarblandaður. Annars er ég bjartsýnn hvað vertíðina varðar og þetta er kannski ekki ósvipað og var í fyrra. Þá kom smá skot í upphafi vertíðar en síðan var tregt í hálfan mánuð eða svo. Eftir það rættist úr veiðinni. Þetta á örugglega allt eftir að lagast og það er jákvætt að menn verði varir við makríl í okkar lögsögu. Við munum ljúka við að landa síðdegis í dag eða í kvöld og þá verður að sjálfsögðu haldið beint til veiða á ný,“ segir Birkir.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að allt sé að komast í fullan gang í fiskiðjuverinu. „Það tekur alltaf smátíma að fá allt til að snúast rétt í upphafi vertíðar en nú gengur vinnslan bara vel. Nýjasti fiskurinn í farmi Vilhelms var bara góður þó væri áta í honum. Við erum að hausa fiskinn núna. Eldri fiskurinn í farminum er eðlilega ekki eins góður. Mér finnst þetta fara vel af stað og hér eru menn bjartsýnir og hafa trú á að vertíðin verði góð,“ segir Geir Sigurpáll.