DSC04341 2

Löndun á frystum makríl úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í dag. Ljósm: Smári Geirsson

                Vilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrsta makrílinn á vertíðinni til Neskaupstaðar í nótt og hófst löndun úr skipinu í morgun. Afli skipsins er rúmlega 480 tonn af frystum makríl og um 200 tonn af afskurði sem fer til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi.

                Skipið var að veiðum frá Stokksnesgrunni og vestur undir Öræfagrunn og tók veiðiferðin rúmlega fimm sólarhringa. Birkir Hreinsson skipstjóri sagði að veiðin hefði verið róleg og það væri ekki mikið af makríl á miðunum. Fiskurinn sem fékkst er 360-380 grömm og dálítil áta í honum. Það var ávallt einhver síld í hverju holi. „Makríllinn virðist vera heldur seinna á ferðinni en síðustu ár og því fer vertíðin hægar af stað. En það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn á vertíðina og við munum halda á ný til veiða strax að löndun lokinni,“ sagði Birkir að lokum.