Bergey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Fyrsta skipið í flota Síldarvinnslunnar og dótturfélaga til að landa afla á nýju ári var Bergey VE. Bergey hélt til veiða á miðnætti á nýársdag og kom til hafnar í Vestmannaeyjum með fullfermi eða um 80 tonn í gærkvöldi. Þegar löndun lauk í morgun var strax haldið til veiða á ný. Heimasíðan ræddi við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Við vorum á Péturseynni með fótreipi lengst af. Í lokin tókum við tvö hol með bobbingunum. Það fiskaðist mjög vel framan af en síðan dró skyndilega úr veiðinni. Vindátt breyttist og sjórinn kólnaði og þá minnkaði veiðin. Fiskurinn sem fékkst þarna er stór og góður vertíðarfiskur. Aflinn var mest þorskur en svo var einnig dálítið af ufsa. Það er ekki unnt að kvarta undan aflabrögðunum því túrinn tók einungis tvo sólarhringa höfn í höfn. Það þarf hörkumannskap þegar svona fiskast og hann er til staðar hér um borð. Nú erum við að sigla út frá Eyjum og stefnan er tekin austur fyrir land. Það verður ekkert veiðiveður við suðurströndina næstu daga,“ segir Ragnar.