Hjálmar Ólafur Bjarnason

Þegar stóra aurskriðan féll á Seyðisfirði föstudaginn 18. desember sl. voru margir í áhöfn Seyðisfjarðatogarans Gullvers áhyggjufullir en skipið var þá að veiðum á sínum hefðbundnu miðum austur af landinu. Að því kom að skipið var kallað inn og kom það að landi aðfaranótt laugardagsins. Allir Seyðfirðingar í áhöfninni sem þess óskuðu fengu frí en skipið þess í stað mannað Norðfirðingum og það tók nánast örskotsstund að manna skipið. Ætlunin var að fara í stuttan karfatúr. Skipstjóri í þessari veiðiferð var Hjálmar Ólafur Bjarnason og var þetta í fyrsta sinn sem hann settist í skipstjórastól en hann hefur verið stýrimaður á Gullver frá árinu 2017. Hjálmar Ólafur hóf sjómennsku á Barða NK einungis 16 ára að aldri árið 1999 og settist í Stýrimannaskólann árið 2010. Hann lauk síðan stýrimannaprófi árið 2014. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf um þessa fyrstu veiðiferð hans í skipstjórastólnum. „Þetta bar brátt að en hamfarirnar á Seyðisfirði gerðu það að verkum að ég, Norðfirðingurinn, færi með skipið. Markmiðið með veiðiferðinni var að veiða karfa og okkur tókst með herkjum að ná þeim afla sem ætlast var til. Veiðiferðin stóð einungis í um tvo sólarhringa og við reyndum fyrir okkur á hefðbundnum slóðum: Lónsdýpinu, Hornafjarðardýpinu og einnig út á Þórsbanka. Staðreyndin er sú að það voru ekki miklar væntingar um góðan afla. Auðvitað voru það tímamót að fara í sinn fyrsta túr sem skipstjóri og þetta gekk allt saman stórslysalaust,“ segir Hjálmar Ólafur.