Vestmannaey VE hefur hafið veiðar á ný eftir langt hlé.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaey VE hélt til veiða á sunnudagsmorgun eftir langt hlé. Skipið var til viðgerðar í um fjögurra mánaða skeið eftir að eldur kom upp í vélarúmi þess í lok októbermánaðar. Fyrsta veiðiferðin gekk vel og kom Vestmannaey með fullfermi til heimahafnar í morgun. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og spurði fyrst hvort ekki væri gott að vera kominn á sjóinn á ný. „Jú, það er svo sannarlega gott. Við fórum austur á Pétursey og vorum þar í fínni veiði á nóttunni en það var minna yfir daginn. Þarna fékkst góður fiskur; þorskur, ýsa og ufsi. Það tók örlítinn tíma að stilla búnaðinn um borð eftir þetta langa hlé en fljótlega var allt farið að ganga eins og í sögu. Við förum út aftur seinni partinn í dag þrátt fyrir að spáð sé bölvaðri brælu,“ segir Birgir Þór.

Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey VE, hefur tvisvar landað fullfermi síðustu daga. Fyrst á laugardag og síðan í gær. Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins, segir að ágætlega hafi aflast að undanförnu og menn séu að vonast eftir góðri vertíð. „Þegar skipin eru farin að landa þrisvar í viku þá er komið gott vertíðartempó í þetta,“ segir Arnar.