Síðdegis í gær kom Bjarni Ólafsson AK með 1.300 tonn af loðnu til Helguvíkur. Er þetta fyrsti loðnufarmurinn sem þangað berst á vertíðinni. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri í Helguvík var afar ánægður með að loðnuvinnsla hæfist þar en á síðustu vertíð barst fyrsti farmurinn þangað um 20. febrúar. „Það er mjög gott að fá einn farm til að gangsetja og prufukeyra verksmiðjuna en við vorum að endurnýja soðlýsishitara og höfum þörf fyrir að prófa hvernig hann virkar. Annars var verksmiðjan í gangi í janúar en þá tókum við í þrígang á móti síldarafskurði til vinnslu frá Hákoni EA,“ sagði Eggert. „Á síðustu vertíð tókum við á móti um 15.000 tonnum af loðnu og vonandi fáum við meira núna. Það er allavega nægur kvóti en óneitanlega hegðar loðnan sér undarlega um þessar mundir og hefur að mestu veiðst fyrir norðan land. Við bíðum bara spenntir eftir að hefja vinnslu og mönnunin í verksmiðjunni er klár. Það er ómetanlegt að reka verksmiðjuna með vönum mönnum.“