Beitir NK að landa stórri og fallegri síld í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson
Í fyrrinótt kom Beitir NK með fyrsta farminn af norsk-íslenskri síld til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á þessari vertíð. Afli skipsins var 700 tonn sem fékkst í þremur holum. Tómas Kárason skipstjóri var ánægður með túrinn. „Við fórum út á laugardag og byrjuðum að toga innarlega í Norðfjarðardýpinu. Að loknu því holi færðum við okkur yfir í Seyðisfjarðardýpið en síðan aftur yfir í Norðfjarðardýpið þar sem við tókum þriðja og síðasta holið. Þetta gekk vel og síldin er stór og falleg eða um 390 grömm að meðaltali. Það var nóg að sjá á þessum slóðum. Þetta voru blettir, ekki mjög stórir. Síldin hélt sig niðri við botn yfir daginn í þéttum torfum en kom upp þegar skyggði og þá var hún heldur dreifðari. Það mun líka vera mikið að sjá af síld austar en við vorum eða austur úr Seyðisfjarðardýpinu. Þetta lítur allt saman vel út hvað veiðarnar áhrærir og það mun örugglega ganga vel að vinna þessa fínu síld, það eru einungis markaðirnar sem eru áhyggjuefnið um þessar mundir,“ sagði Tómas.
Birtingur NK hefur einnig hafið síldveiðar þannig að gera má ráð fyrir samfelldri vinnslu á næstunni.