Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11.desember nk.  munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um fyrstu starfsárin.
 
Síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar sumarið 1961. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarverksmiðja Síldarvinnslunnar sumarið 1961.
Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar
Eins og fram kom í fyrri pistli hófst móttaka síldar í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar hinn 17. júlí árið 1958. Fljótlega kom í ljós hve miklu máli tilkoma verksmiðjunnar skipti fyrir samfélagið. Í verksmiðjunni urðu til ný störf og bæjarsjóður og hafnarsjóður fengu auknar tekjur. Einnig gjörbreyttist aðstaða til síldarsöltunar í Neskaupstað og söltunarstöðvum fjölgaði. Þá jukust verkefni netagerðar og margra þjónustufyrirtækja. Verksmiðjan olli því að síldin setti í æ ríkari mæli mark sitt á  bæinn. Sumarið 1958 tók verksmiðjan á móti 4.075 tonnum af síld og þótti það verulegt magn. Þá var síld  söltuð í 2.519 tunnur í Neskaupstað þetta sumar.
 
Síldveiðarnar jukust næstu árin og móttaka og vinnsla síldar varð sífellt viðameiri þáttur norðfirsks atvinnulífs. Byggðir voru tveir hráefnistankar árið 1962 og aftur árið 1965 og mjölhús voru reist 1960, 1963 og 1965. Þá voru lýsistankar byggðir árið 1961 og 1965. Á þessum árum var sífellt verið að bæta búnað verksmiðjunnar og var svo komið árið 1966 að hún gat unnið úr 5.200 málum (700 tonnum ) á sólarhring. Segja má að afkastaaukningin og framkvæmdir við verksmiðjuna hafi verið í góðum takti við þróun síldveiðanna því þær gengu sífellt betur. Á árunum 1964-1967 veiddist síldin ekki einungis yfir sumartímann eins og verið hafði heldur langt fram á vetur. Áhersla á söltun síldar óx að sama skapi. Árið 1961 urðu síldarsöltunarstöðvarnar tvær og sumarið 1962 var saltað á fjórum stöðvum í Neskaupstað. Árið 1964 voru stöðvarnar orðnar fimm og ein bættist við árið 1965 en þá var saltað í yfir 50.000 tunnur í Neskaupstað.
 
Á fyrstu starfsárum verksmiðjunnar lönduðu bátarnir síldinni við bryggjuna framan við fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna en þar var komið fyrir löndunarkrana sem fluttur var austur frá Dagverðareyri. Frá bryggjunni lágu færibönd sem flutti síldina í verksmiðjuþrærarnar. Sérstök löndunarbryggja fyrir verksmiðjuna var síðan byggð árið 1962 og eftir það var unnt að landa úr tveimur bátum samtímis.
 
Tíð skipti voru á verksmiðjustjórum fyrstu starfsárin. Sveinmar Jónsson var verksmiðjustjóri sumarið 1958 en við af honum tók Ingi Sæmundsson sem sinnti starfinu sumarið eftir. Hilmar Haraldsson var síðan verksmiðjustjóri á árunum 1960-1962. Í októbermánuði 1962 var Kristinn Sigurðsson ráðinn í starf verksmiðjustjóra og sinnti hann slíku starfi hjá Síldarvinnslunni til ársins 1986.
 

Síldarbátar landa í verksmiðju Síldarvinnslunnar sumarið 1963. Ljósm: Jón LundbergSíldarbátar landa í verksmiðju Síldarvinnslunnar sumarið 1963. Ljósm: Jón Lundberg

Eins og fyrr greinir jókst sífellt móttekið magn síldar hjá síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar á árunum 1958-1966. Hér á eftir verður birt yfirlit um hið móttekna magn á umræddu tímabili:
 
 
Ár  Móttekið magn síldar (tonn) 
1958 4.075 
1959 10.258 
1960 13.245 
1961 17.341
1962 29.025
1963 34.220
1964 54.561
1965 70.200
1966 107.503

  

Árið 1967 urðu þáttaskil í síldveiðunum og þá bárust einungis rúmlega 33 þúsund tonn af síld til verksmiðjunnar í Neskaupstað. Á árinu 1968 má síðan segja að síldveiðarnar hafi endanlega hrunið og fékk verksmiðjan einungis tæp þrjú þúsund tonn til vinnslu. Fyrirtækið hafði verið stofnað sérstaklega með síldarvinnslu í huga en nú var síldarveislunni lokið að sinni og þörf á að beina sjónum í auknum mæli að öðrum þáttum veiða og vinnslu.