Landað úr Bergi VE og Vestmannaey VE í Vestmannaeyjum í gær.
Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu í Vestmannaeyjum í gær að lokinni fyrstu veiðiferð ársins. Bæði skipin voru með fullfermi eða tæplega 75 tonn og meirihluti aflans hjá báðum var ýsa. Arnar Richardsson, rekstrarstjóri skipanna, segir að árið byrji afskaplega vel. Vetsmannaey og Bergur munu halda til veiða á ný á laugardaginn.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að veiðin hafi verið góð. „Við byrjuðum á Pétursey og Vík og kláruðum síðan á Meðallandsbugt. Það var gott veður í túrnum og allt gekk vel,“ segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, talar einnig um góða veiði. „Við vorum að veiða á sömu miðum og Bergur. Það er oft gott að fylgjast að. Það var fínasta nudd í upphafi túrsins en síðan enduðum við í mjög góðri veiði,“ segir Birgir Þór.

Gullver NS landar á Seyðisfirði í dag. Aflinn er rúmlega 75 tonn, mestmegnis þorskur. Skipið var að veiðum á Tangaflaki og í Seyðisfjarðardýpi að sögn Þórhalls Jónssonar skipstjóra. Gullver heldur á ný til veiða síðdegis í dag.