Nú er landað úr Gullver NS við Strandarbakka á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarar Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins komu úr fyrstu veiðiferð ársins í gær og í nótt. Bergey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í gær með um 60 tonn. Uppistaða aflans var ýsa. Vestmannaey VE kom síðan til löndunar sl. nótt með 55 tonn og var aflinn þar einnig að mestu ýsa. Að sögn Arnars Richardssonar rekstrarstjóra byrjar árið snemma að þessu sinni en í fyrra komust skip Bergs-Hugins ekki á sjó fyrr en 13. janúar vegna veðurs.

Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag. Afli skipsins er 65 tonn og er uppistaðan þorskur og ýsa. Vegna hamfaranna í desember er ekki landað úr skipinu við frystihúsið heldur við Strandarbakka. Er þetta í fyrsta sinn sem fiski er landað þar en ferjan Norræna er afgreidd við Strandarbakka. Að sögn Ómars Bogasonar er gert ráð fyrir að vinnsla í frystihúsinu geti hafist í fyrri hluta næstu viku en unnið er að hreinsunarstarfi á Seyðisfirði af eins miklum krafti og unnt er.