Mjög góð makrílveiði var í Smugunni í gær og eru þrjú skipanna sem tengjast Síldarvinnslunni á landleið en Bjarni Ólafsson AK lýkur við að landa rúmlega 1000 tonnum í Neskaupstað í dag. Beitir NK er á leið til Neskaupstaðar með 1700 tonn og er væntanlegur síðdegis. Margrét EA er á leið til Færeyja með 1260 tonn og Börkur NK er á leið til Florö í Noregi með 930 tonn. Ástæðan fyrir löndunum erlendis er sú að veiðin er umfram afkastagetu fiskiðjuversins í Neskaupstað. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði frétta. „Þessi 1700 tonn sem við erum með er gæðahráefni. Þetta er átulaus fiskur og meðalþyngdin er yfir 500 grömm. Þetta gerist vart betra. Það var mjög góð veiði í gær og þá tókum við síðasta holið. Þetta var 400 tonna hol. Við höfðum dregið í töluverðan tíma þegar fiskurinn birtist allt í einu og þessi 400 tonn komu í trollið á einum og hálfum tíma. Aflinn sem við erum með fékkst í fimm holum; við tókum þrjú hol og Börkur tvö. Samvinna skipanna sem veiða á vegum Síldarvinnslunnar hefur gengið afar vel alla vertíðina og þetta er mjög skynsamlegt fyrirkomulag ekki síst þegar langt er að sækja. Þegar við komum til Neskaupstaðar í dag er verið að klára að vinna úr Bjarna Ólafssyni þannig að þetta smellpassar allt saman,“ segir Tómas.
Eins og fyrr greinir er Börkur á leiðinni til Noregs þar sem hann mun landa afla sínum. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist á skömmum tíma. „Aflinn fékkst í tveimur holum, annað tókum við og hitt tók Margrét. Við toguðum í 55 mínútur og þegar við vorum búnir að dæla aflanum um borð beið Margrétin eftir að við dældum úr trollinu hjá þeim. Við munum koma til Florö klukkan níu í kvöld og þar vinna þeir 50 til 70 tonn á tímann þannig að við verðum búnir þar á morgun. Þegar svona gengur á miðunum er þetta bara draumur í dós,“ segir Hjörvar.