Beitir NK kom til Neskaupstaðar sl. miðvikudag með 855 tonn af makríl. Um er að ræða eigin afla skipsins en veiðisamstarfi skipanna sem landa hjá Síldarvinnslunni lauk fyrr í vikunni. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra og spurði fyrst hvar veiðin hefði verið. „Þegar við lukum veiðinni voru 176 mílur í land þannig að veiðin fór fram í íslenskri lögsögu eins og að undanförnu. Aflinn fékkst í sex holum. Það var dálítið lengi dregið en við fengum mest 200 tonn í holi. Þetta er stór og góður fiskur, 560 – 580 grömm. Fiskurinn er nánast átulaus og stinnur enda skilst mér að hann sé allur heilfrystur. Þetta er besti fiskurinn sem fengist hefur á vertíðinni, sannkallaður gæðamakríll. Það er ekki auðvelt að ná honum því hann er styggur og sprettharður. Það hefur verið lítil veiði síðustu dagana en veiðin hefur verið köflótt og ómögulegt að segja hvenær hún glæðist á ný,“ segir Tómas.