
Það var suður-afríska fyrirtækið Sea Harvest sem festi kaup á Birtingi og Barða á sínum tíma og hóf að gera þá út á hvítfiskveiðar (hake). Barði fékk nafnið Harvest Kirstina og Birtingur nafnið Harvest Bettina eftir að þeir voru skráðir í Suður-Afríku. Harvest Kirstina er enn gerð út á vegum Sea Harvest en Harvest Bettina var hins vegar lagt árið 2009 og var þá ráðgert að selja hann í brotajárn. Eftir að hafist var handa við að hirða úr skipinu allt nýtilegt áður en það yrði rifið hafði suður-afríski sjóherinn samband við brotajárnsfyrirtækið og spurðist fyrir um hvort þýski sjóherinn gæti fengið skipið en ætlunin væri að nota það sem skotmark á heræfingu. Niðurstaðan varð sú að þýski herinn fékk skipið og hlaut það þá nafnið Betti. Þegar þýski herinn tók við skipinu lá það í höfn í Saldanha Bay en þaðan var það dregið til flotastöðvarinnar í Simons Town. Frá Simons Town var skipið síðan dregið á svæðið sem heræfingin fór fram á (De Hoop Missile Test Range) en það er austur af Cape Agulhas, syðsta odda Afríku. Á heræfingunni var Betti síðan skotin í kaf en ekki hefur verið gefið upp nákvæmlega hvenær heræfingin fór fram á árinu 2009.

Höfuðstöðvar suður-afríska útgerðarfyrirtækisins Sea Harvest eru í Saldanha Bay sem er á vesturströndinni suður undir Góðrarvonarhöfða og skammt frá Höfðaborg. Til gamans skal þess getið að Hans Ellefsen hvalstöðvarstjóri á Asknesi í Mjóafirði og áður á Sólbakka í Önundarfirði reisti hvalstöð í Saldanha Bay árið 1911 og þar störfuðu hjá honum allmargir Íslendingar.
Það var Norðfirðingurinn Gísli Gíslason sem aflaði upplýsinganna um Birting og Barða eftir að þeir komust í eigu Sea Harvest. Helsti heimildamaður Gísla um þetta efni var Jaco Louw.
Togarinn fékk nafnið Betti þegar hann komst í eigu þýska sjóhersins. Myndin er tekin á flotastöðinni Simons Town árið 2009 skömmu áður en togarinn var skotinn í kaf. Ljósm. Jaco Louw (Birt með leyfi Óskars Franz)
