Birtingur NK á þeim tíma sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar. Ljósm. Snorri SnorrasonBirtingur NK á þeim tíma sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar. Ljósm. Snorri SnorrasonÁrið 1977 festi Síldarvinnslan kaup á skuttogaranum Birtingi. Skipið var keypt frá Frakklandi en hafði verið smíðað í Póllandi árið 1975. Árið 1980 festi Síldarvinnslan síðan kaup á systurskipi Birtings sem fékk nafnið Barði. Útgerð þessara togara var farsæl á meðan þeir voru í eigu Síldarvinnslunnar. Þegar Síldarvinnslan festi kaup á nýjum Barða (áður Júlíus Geirmundsson ÍS) árið 1989 gekk eldri Barði upp í kaupin en fljótlega var hann seldur úr landi og hafnaði á endanum í Suður-Afríku. Birtingur var í eigu Síldarvinnslunnar fram á árið 1992 en þá stofnaði fyrirtækið ásamt Seyðfirðingum útgerðarfélagið Birting hf. sem annaðist útgerð hans um nokkurra mánaða skeið. Birtingur var síðan seldur til Suður-Afríku seint á árinu 1992. 
 
Það var suður-afríska fyrirtækið Sea Harvest sem festi kaup á Birtingi og Barða á sínum tíma og hóf að gera þá út á hvítfiskveiðar (hake). Barði fékk nafnið Harvest Kirstina  og Birtingur nafnið Harvest Bettina eftir að þeir voru skráðir í Suður-Afríku. Harvest Kirstina er enn gerð út á vegum Sea Harvest en Harvest Bettina var hins vegar lagt árið 2009 og var þá ráðgert að selja hann í brotajárn. Eftir að hafist var handa við að hirða úr skipinu allt nýtilegt áður en það yrði rifið hafði suður-afríski sjóherinn samband við brotajárnsfyrirtækið og spurðist fyrir um hvort þýski sjóherinn gæti fengið skipið en ætlunin væri að nota það sem skotmark á heræfingu. Niðurstaðan varð sú að þýski herinn fékk skipið og hlaut það þá nafnið Betti. Þegar þýski herinn tók við skipinu lá það í höfn í Saldanha Bay en þaðan var það dregið til flotastöðvarinnar í Simons Town. Frá Simons Town var skipið síðan dregið á svæðið sem heræfingin fór fram á (De Hoop Missile Test Range) en það er austur af Cape Agulhas, syðsta odda Afríku. Á heræfingunni var Betti síðan skotin í kaf en ekki hefur verið gefið upp nákvæmlega hvenær heræfingin fór fram á árinu 2009.
 
Harvest Bettina (áður Birtingur NK) í höfn í Saldanha Bay skömmu áður en skipinu var lagt.  Ljósm. Jaco Louw (Birt með leyfi Óskars Franz)Harvest Bettina (áður Birtingur NK) í höfn í Saldanha Bay skömmu áður en skipinu var lagt. Ljósm. Jaco Louw (Birt með leyfi Óskars Franz)Segja verður að örlög gamla Birtings séu sérstök og ekki er vitað til þess að annað skip sem verið hefur í eigu Síldarvinnslunnar hafi horfið úr sögunni með jafn dramatískum hætti.
 
Höfuðstöðvar suður-afríska útgerðarfyrirtækisins Sea Harvest eru í Saldanha Bay sem er á vesturströndinni suður undir Góðrarvonarhöfða og skammt frá Höfðaborg. Til gamans skal þess getið að Hans Ellefsen hvalstöðvarstjóri á Asknesi í Mjóafirði og áður á Sólbakka í Önundarfirði reisti hvalstöð í Saldanha Bay árið 1911 og þar störfuðu hjá honum allmargir Íslendingar.
 
Það var Norðfirðingurinn Gísli Gíslason sem aflaði upplýsinganna um Birting og Barða eftir að þeir komust í eigu Sea Harvest. Helsti heimildamaður Gísla um þetta efni var Jaco Louw.Togarinn fékk nafnið Betti þegar hann komst í eigu þýska sjóhersins. Myndin er tekin á flotastöðinni Simons Town árið 2009 skömmu áður en togarinn var skotinn í kaf. Ljósm. Jaco Louw (Birt með leyfi Óskars Franz)Togarinn fékk nafnið Betti þegar hann komst í eigu þýska sjóhersins. Myndin er tekin á flotastöðinni Simons Town árið 2009 skömmu áður en togarinn var skotinn í kaf. Ljósm. Jaco Louw (Birt með leyfi Óskars Franz)