Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í fyrrinótt að lokinni veiðiferð og var aflinn 106 tonn, mest þorskur, ýsa og karfi. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. “Við vorum í karfa í Berufjarðarál og Lónsbugt en tókum þorskinn og ýsuna í Hvalbakshalli og á Breiðdalsgrunni. Það gekk ágætlega að fiska en veður var heldur leiðinlegt tvo síðustu dagana. Það var í reyndinni hálfgert vetrarveður þessa daga; norðanátt 15 metrar og kaldadrulla. Það hefur í reynd ekki verið neitt sérstaklega sumarlegt á okkar hefðbundnu miðum í sumar. En þó veðrið hafi stundum mátt vera betra þá hefur veiði verið fín. Ufsinn er í reynd eina vandamálið en hann lætur lítið sjá sig. Stundum mætti karfaveiðin einnig vera betri. Þorsk- og ýsuveiðin hefur hins vegar gengið býsna vel. Sérstaklega er áberandi hve mikið er af ýsu,” segir Þórhallur.
Gullver mun halda á ný til veiða á morgun.