Bergey VE og Vestmannaey VE hafa fiskað vel að undanförnu.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Bergey VE og Vestmannaey VE, hafa verið að gera það býsna gott eftir að vetrarvertíð lauk. Bæði skip héldu til veiða á mánudag í síðustu viku og lönduðu fullfermi í Eyjum á miðvikudag. Afli Bergeyjar var að mestu djúpkarfi en Vestmannaeyjar þorskur og ufsi. Skipin héldu á ný til veiða á fimmtudagskvöld, lentu í skítabrælu um helgina, en eru bæði að koma til löndunar í Eyjum í dag. Vestmannaey lagðist að bryggju í morgun með fullfermi og ræddi heimasíðan við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra um túrinn. „Þetta var bölvaður brælutúr. Við byrjuðum að veiða við Pétursey en síðan mest á Víkinni og við Ingólfshöfða. Fórum síðan austur í Lónsbugt og enduðum loks í Sláturhúsinu. Aflinn er blandaður; þorskur, ýsa, skarkoli, steinbítur og fleiri tegundir,“ segir Birgir Þór.

Þegar rætt var við Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey í morgun var skipið statt út af Alviðruhömrum í austan brælu á leið til löndunar. „Við erum með fullfermi og þetta er mest ýsa og þorskur en einnig ýmsar aðrar tegundir. Í túrnum var mest veitt í Sláturhúsinu og í Lónsbugtinni en einnig út af Ingólfshöfða og á Víkinni. Aflinn var þokkalegur allan tímann en veðrið var óhagstætt, leiðindabræla,“ segir Jón.