Vinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonStrax og Beitir NK lauk við að landa síðasta makrílfarminum í Neskaupstað hélt hann til síldveiða sl. föstudag og var kominn inn seint á laugardag með 1000 tonn af stórri og góðri síld. Tómas Kárason skipstjóri sagði í samtali við heimasíðuna að túrinn hefði gengið vel í alla staði. „Við fengum þessi 1000 tonn í fjórum holum og vorum að veiðum 20-30 mílur norðaustur af Norðfjarðarhorni. Það var nóg af síld að sjá á þessum slóðum og þannig er það oft um þetta leyti árs. Við héldum strax að löndun lokinni til veiða á ný en það virðist ætla að verða eitthvað rysjótt tíðin framundan. Vonandi verðum við þó búnir að ná góðum afla áður en brælir fyrir alvöru,“ sagði Tómas. 
 
Sömu sögu er að segja af Berki NK. Hann hélt til síldveiða að lokinni makríllöndun sl. laugardag og kom inn í gærkvöldi með um 1100 tonn af gæðasíld. Það er því unnið með fullum afköstum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og verður vonandi svo þar til þessum síldveiðum lýkur.