Jón Gunnar Sigurjónsson

Jón Gunnar Sigurjónsson lét af störfum yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um síðustu áramót. Hann starfaði hjá fyrirtækinu í 28 ár og hefur frá ýmsu að segja. Jón Gunnar er fæddur og uppalinn Norðfirðingur, kvæntur Huldu Gísladóttur frá Seldal og eiga þau þrjú börn. Börnin eru Sigurjón Gísli, ráðgjafi í Kópavogi, Páll, sölustjóri hjá Norðanfiski í Reykjavík og Guðbjörg, lyfjafræðingur í Neskaupstað. Heimasíðan tók Jón Gunnar nýlega tali.

-Hvenær hófst þú störf hjá Síldarvinnslunni?

-Ég hóf störf hjá Síldarvinnslunni árið 1994. Áður starfaði ég hjá Gylfa Gunnarssyni eða Mána og hjá því fyrirtæki var ýmsu sinnt. Fyrirtækið framleiddi til dæmis steypu en rak einnig síldarsöltunarstöð og laxeldi um tíma. Það var Máni sem keypti fyrstu síldarflökunarvélina sem kom á Austfirði og það var hjá Mána sem menn byrjuðu að framleiða síldarbita sem síðar urðu þekktir undir heitinu Þróttarsíld og síðar Jólasíld. Þessir síldarbitar hafa verið framleiddir hjá Síldarvinnslunni lengi og notið sívaxandi vinsælda. Þegar starfinu hjá Mána lauk starfaði ég um tíma hjá Magna Kristjánssyni og var rekstrarstjóri Tröllanausts. Þaðan fór ég til Ríkismats sjávarafurða og var þar í nokkur ár. Þá starfaði ég hjá fyrirtækinu Norðsjó hf. sem annaðist ígulkeravinnslu í Neskaupstað og að því ævintýri loknu lá leiðin til Síldarvinnslunnar.

Framleiðsla á loðnuhrogunum. Jón Gunnar fylgist með

Það var semsagt árið 1994 sem Finnbogi Jónsson, þáverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hringdi í mig og spurði hvort ég vildi taka að mér starf yfirverkstjóra í gamla frystihúsinu. Ég sló til og gegndi starfinu til síðustu áramóta.

Ég starfaði í gamla frystihúsinu í þrjú ár en árið 1997 var fiskiðjuverið tekið í notkun. Það var afar spennandi og skemmtilegt að fá að taka þátt í að koma upp fiskiðjuverinu. Bygging fiskiðjuversins tók ótrúlega stuttan tíma og var það búið öllum nýjustu og bestu tækjum sem völ var á.

-Breyttist mikið með tilkomu fiskiðjuversins?

-Já, breytingarnar voru í reynd ótrúlega miklar. Sem dæmi má nefna að í gamla frystihúsinu var hægt að frysta 55 tonn af loðnu á sólarhring og störfuðu um 60 manns á vaktinni. Í fiskiðjuverinu var í upphafi unnt að frysta 380 tonn á loðnu á sólarhring og voru 16 manns á vakt. Síðan hafa afköst fiskiðjuversins aukist mikið og nú er unnt að frysta þar 700 – 800 tonn af loðnu á sólarhring án þess að starfsfólki hafi fjölgað. Tækni og margskonar búnaður hefur valdið byltingu og þróunin í þeim efnum hefur verið býsna hröð.

Framan af var bolfiskur unninn í fiskiðjuverinu rétt eins og gert hafði verið í gamla frystihúsinu. Að því kom að vinnslu bolfisks var hætt einfaldlega vegna þess að uppsjávarvinnslan tók sífellt meiri tíma. Kaupendur bolfisks gera kröfu um stöðugar afhendingar vörunnar en við gátum vart orðið við því vegna álagsins sem fylgdi uppsjávarvinnslunni. Það breytti líka miklu þegar makríllinn kom til sögunnar en með tilkomu hans má segja að vinnsla uppsjávarfisks með tilheyrandi vaktavinnu hafi staðið yfir í meira en átta mánuði á ári. Þegar hlé varð á uppsjávarvinnslu á milli vertíða vildi starfsfólkið gjarnan slappa af áður en næsta törn hæfist.

Jólasíldin frá Síldarvinnslunni nýtur mikilla vinsælda. Jón Gunnar í miðjum hópi starfsfólks sem að framleiðslu síldarinnar

-Hvað finnst þér vera eftirminnilegast varðandi breytingar síðustu ára?

-Ein helsta breytingin fólst í því að stýring var tekin upp á veiðum uppsjávarskipa. Áður veiddu skipin bara eins og þau gátu nánast án tillits til vinnslunnar í landi. Stýringin fólst í því að skipin veiddu með hliðsjón af framleiðslugetu vinnslustöðvanna þannig að hugsað var um gæði hráefnisins. Þetta skipti sköpum fyrir manneldisvinnsluna og jók að sjálfsögðu mjög verðmæti aflans. Þegar skipin fóru að kæla aflann um borð varð líka mikil og jákvæð breyting hvað varðaði gæði hráefnis.

Önnur breyting sem mér er afar eftirminnileg tengist vinnuaflinu. Erlendum starfsmönnum hefur fjölgað mjög mikið og nú gæti ég trúað að innlendir starfsmenn séu um 20% af þeim sem vinna beint við vinnsluna í fiskiðjuverinu. Síldarvinnslan hefur verið afskaplega heppin með þessa erlendu starfsmenn því um er að ræða gott vinnuafl. Margir þessara starfsmanna hafa sest að í Neskaupstað og aðrir koma til starfa ár eftir ár þannig að þarna er orðið um að ræða reynslumikið fólk.

Auðvitað er vinnuálag í fiskiðjuverinu mikið á meðan vertíðir standa yfir og það er mikilvægt að starfsfólkið sé traust og gott. Góður árangur við framleiðsluna byggist að sjálfsögðu á góðu starfsfólki fyrst og fremst.

Staðreyndin er sú að gífurlegar breytingar hafa átt sér stað á þeim 28 árum sem ég starfaði hjá Síldarvinnslunni og framfarirnar á flestum sviðum hafa verið hreint ótrúlegar.

-Hvernig heldurðu að lífið verði án vinnunnar?

-Lífið verður gott. Ég held mér eigi ekki eftir að leiðast. Nú vinn ég einungis fyrir sjálfan mig og mína nánustu og það veitir gleði. Ég hef gaman af að ferðast, spila bridds og njóta útiveru og það verður mikið gert af því öllu á næstunni. Ég hætti að vinna sáttur og glaður og hlakka til komandi ára.

Jón Gunnar og Hulda með börnum og tengdabörnum á góðri stundu á Anfield í Liverpool