Gísli Runólfsson í brúnni á Bjarna Ólafssyni AK að loknum síðasta túrnum. Ljósm. Smári GeirssonGísli Runólfsson í brúnni á Bjarna Ólafssyni AK að loknum síðasta túrnum. Ljósm. Smári GeirssonMiðvikudaginn 3. júní sl. kom Bjarni Ólafsson AK með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar. Aflann fékk skipið í færeyskri lögsögu. Það heyrir varla til mikilla tíðinda að Bjarni Ólafsson komi að landi með góðan afla, en það sem er sögulegt við þessa veiðiferð er sú staðreynd að hún var sú síðasta hjá Gísla Runólfssyni skipstjóra. Gísli hefur verið skipstjóri í rúmlega 41 ár og það eru því sannkölluð tímamót þegar hann lætur af störfum og fer í land. Strax og skipið lagðist að bryggju brá tíðindamaður heimasíðunnar sér um borð og átti eftirfarandi viðtal við Gísla.
 
Er það satt að þú sért að hætta, Gísli ?
 
Já, það er alveg hreina satt. Ég er búinn að vera skipstjóri í meira en 40 ár og mér finnst komið gott. Ég hóf sjómannsferilinn reyndar árið 1975 sem háseti, en lauk síðan stýrimannanámi árið 1978. Þegar ég kláraði skólann fór ég beint austur á Norðfjörð um borð í Bjarna Ólafsson og varð stýrimaður hjá föður mínum Runólfi Hallfreðssyni. Stýrimannsferillinn varð ekki langur því faðir minn veiktist árið 1979 og þá tók ég við sem skipstjóri. Ég hef verið í skipstjórastarfinu síðan.
 
Ég hef aldrei verið skipstjóri á skipi sem ekki heitir Bjarni Ólafsson og ég hef aldrei verið skipstjóri á skipi sem ekki er gult að lit. Skipin sem ég hef stýrt í gegnum tíðina eru þrjú, en Runólfur Hallfreðsson ehf. festi kaup á núverandi Bjarna Ólafssyni árið 2015.
 
Ég vil taka það fram að ég er ekki að hætta sem skipstjóri vegna þess að ég sé orðinn háaldraður. Ég verð 62 ára á þessu ári og er bara nokkuð sprækur.
 
Síðasti túrinn hans Gísla. Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári GeirssonSíðasti túrinn hans Gísla. Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári GeirssonHeldurðu að þú eigir ekki eftir að sjá eftir ýmsu þegar þú ert hættur ?
 
Jú, blessaður vertu. Ég finn fyrir ákveðnu tómarúmi nú þegar. Það er skrítin tilfinning að segja skilið við lífsstarfið, en þetta er ákvörðun sem verður ekki breytt – ég er steinhættur. Ég er búinn að velta fyrir mér starfslokum í ein tvö ár og niðurstaða er fengin. Það er ljóst að ég á mikið eftir að hugsa til þeirra sem eru á sjónum á komandi tímum og ég á eftir að fylgjast vel með aflabrögðum. Ég veit að skipið verður í góðum höndum, en bróðir minn, Runólfur Runólfsson, hefur lengi verið skipstjóri á móti mér og hann verður áfram. Þá eru menn um borð sem gætu auðveldlega tekið við af mér. Það er hins vegar alveg ljóst að ég ræð ekki eftirmanni mínum. 
 
Hvað hefur einkum  einkennt þinn skipstjóraferil ?
 
Það sem upp úr stendur er að ég hef verið heppinn. Ég hef aldrei orðið fyrir stóráföllum á ferlinum. Auðvitað hefur ýmislegt komið upp á, en almennt hefur allt gengið þokkalega vel. Ég hef ávallt komist að landi, aflað sæmilega og reyndar alltaf klárað þá kvóta sem hafa verið til ráðstöfunar. Ég hef líka notið þess alla tíð að hafa frábæra áhöfn.
 
Hvað hefur helst breyst á þínum ferli sem skipstjóri ? 
 
Það hafa orðið gríðarlegar breytingar. Það sem ég vil helst nefna eru breytingar á skipum og veiðarfærum. Skipin er bæði stærri og öflugri en áður auk þess sem þau eru miklu betur tækjum búin. Veiðarfærin eru einnig miklu stærri, en þrátt fyrir það er auðveldara að vinna með þau að öllu leyti. Þetta hvoru tveggja þýðir aukin afköst og breytingar á störfum um borð. Þessi þróun hefur leitt til mikillar fækkunar í áhöfnum skipanna. Lengi vel voru 15 menn í áhöfnum uppsjávarskipa en núna eru yfirleitt 8 í áhöfn.
 
Það sem hefur einnig breyst er að áherslan er ekki lengur á magn þess sem veitt er heldur verðmæti. Í dag veiða uppsjávarskipin fyrst og fremst til manneldisvinnslu og þau eru útbúin til að koma með kældan afla að landi. Eina tegundin sem almennt er ekki unnin til manneldis er kolmunninn.
 
Hjá okkur á Bjarna Ólafssyni varð líka mikil breyting þegar Síldarvinnslan keypti meirihlutann í Runólfi Hallfreðssyni ehf. árið 2016. Þá varð mögulegt að gera skipið út af miklu meiri krafti en áður því meiri kvóti var til staðar og það skiptir öllu máli að geta nýtt skipið vel. Það var mikið happ fyrir okkur að tengjast Síldarvinnslunni enda er hún traust og gott fyrirtæki sem er vel stjórnað.
Gísli leggur að bryggju í síðasta sinn. Ljósm. Smári Geirsson.Gísli leggur að bryggju í síðasta sinn. Ljósm. Smári Geirsson 
Nú þegar þú ert hættur, hvað ætlar þú að taka þér fyrir hendur ?   
 
Til að byrja með ætla ég ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Síðan ætla ég að njóta mín og leggja stund á hestamennsku og laxveiðar og fleira skemmtilegt. Annars vorum við hjónin að festa kaup á stórum hluta í fyrirtækinu Norðanfiski á Akranesi og það verður spennandi að taka einhvern þátt í uppbyggingu þess. Norðanfiskur var áður í eigu Brims og framleiðir fiskrétti í neytendapakkningum og einnig fyrir stóreldhús. Það verður fínt verkefni að þróa þetta fyrirtæki áfram í samvinnu við gott fólk.
 
Hvað er þér efst í huga á þessari stundu ?
 
Efst í huga mínum núna er þakklæti til allra sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Ég hef kynnst mörgum á ferlinum og á frábærar minningar sem munu ylja mér í framtíðinni.