Magnús Kristinsson afhendir Arnóri Arnórssyni, formanni Björgunarfélags Vestmannaeyja, gjöfina

Fyrir nokkru afhenti Magnús Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum, Björgunarfélagi Vestmannaeyja eina milljón króna til minningar um Finn Kristján Halldórsson sjómann á Bergey VE. Finnur Kristján drukknaði fyrir 35 árum en hann var einungis 23 ára að aldri þegar hann lést.Við afhendinguna rifjaði Magnús upp þennan sorgaratburð og sagði að útgerðin, hann sjálfur og fjölskylda hans vildu minnast Finns Kristjáns heitins og það væri best gert með því að styðja við bakið á Björgunarfélaginu. 

Arnór Arnórsson formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja veitti gjöfinni móttöku. Í þakkarræðu gat hann þess að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Björgunarfélagið nyti myndarlegra styrkja frá Bergi-Hugin og þætti félagsmönnum afar vænt um þann hlýhug sem fram kæmi með gjöfinni.