Beitir NK siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Ljósm. Hákon ErnusonHinn nýi Beitir sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð kl. 11 í morgun. Tekið var á móti skipinu með viðhöfn; flugeldum var skotið á loft og fjöldi fólks var saman kominn á hafnarbakkanum í miðbæ Neskaupstaðar til að virða glæsifleytuna fyrir sér. Skipið sigldi fram og aftur um fjörðinn þannig að færi gafst til að skoða það frá öllum sjónarhornum. Sunnudaginn 27. desember kl. 15-17 verður síðan öllum boðið að skoða skipið í Norðfjarðarhöfn en þá fer einnig fram formleg móttökuathöfn.
 
Skipstjórar á Beiti eru þeir Sturla Þórðarson og Tómas Kárason. Í stuttu spalli við þá kom fram að þeir eru afar hrifnir af skipinu. Sturla sagði að skipið væri bæði stórt og flott. „Það er afar vel búið og aðstæður fyrir áhöfn einfaldlega frábærar. Það á að vera hægt að fiska á þetta skip og koma með gæðahráefni að landi en það er einmitt það sem skiptir öllu máli,“ sagði Sturla. Tómas tók undir þetta og bætti við: „Mér líst frábærlega á skipið. Það er stórt og fer afskaplega vel með mannskapinn um borð. Hér er fullt af allskonar græjum til að létta mönnum störfin og auka öryggi og reyndar er tvöfalt eða þrefalt af þeim flestum. Það verður svo sannarlega spennandi að halda til veiða á þessu skipi. Maður getur varla beðið,“ sagði Tómas. Þess skal getið að Tómas er sonur Sigurjóns heitins Valdimarssonar sem var skipstjóri á skipum Síldarvinnslunnar frá því að fyrirtækið hóf útgerð árið 1965 til ársins 2006 en Sigurjón var einmitt skipstjóri á elsta Beiti í ein 25 ár.