Vilhelm Þorsteinsson EA að landa fyrsta kolmunnafarmi ársins í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Síðustu daga hefur verið góð kolmunnaveiði á gráa svæðinu suður af Færeyjum og hafa íslensku uppsjávarskipin hafið veiðar. Vilhelm Þorsteinsson EA kom með fyrsta kolmunnafarm ársins til Neskaupstaðar í gærkvöldi og er verið að landa úr skipinu. Heimasíðan ræddi við Birki Hreinsson, skipstjóra á Vilhelm, í morgun og spurði fyrst hvort mikið væri að sjá af fiski á veiðislóðinni. „Það var reyndar ekki mikið að sjá en engu að síður gengu veiðarnar þokkalega. Við komum með fullfermi eða 3100 tonn og er allur aflinn kældur. Aflinn fékkst í sex holum og þau voru mislöng eða frá 10 og upp í 18 tíma. Það liðu rétt rúmir fjórir sólarhringar frá því við köstuðum fyrst austarlega á gráa svæðinu og þar til lagt var af stað í land með fullfermi. Fiskurinn er að ganga þarna norður eftir en það hefur verið ágæt veiði í skosku lögsögunni að undanförnu. Annars hafa ekki verið jafnmörg skip að veiðum í skosku lögsögunni og undanfarin ár, sérstaklega eru norsku skipin fá núna. Mér líst vel á framhald veiðanna. Þetta lítur bara ágætlega út,“ segir Birkir.

Fleiri kolmunnaskip eru væntanleg til löndunar. Börkur NK er á landleið með fullfermi og er væntanlegur til Seyðisfjarðar sídegis í dag og Hákon EA er væntanlegur til Neskaupstaðar í fyrramálið. Þá er Beitir NK að fylla þegar þetta er skrifað. Kolmunnavertíð er semsagt hafin af fullum krafti.