Í gær var góð makrílveiði austur af landinu og voru skip jafnvel að fá um og yfir 400 tonn í holi. Síldarvinnslu- og Samherjaskipin sem eru í veiðisamstarfi voru að veiðum 80 til 100 mílur austur af Norðfjarðarhorni.
Margrét EA kom til Neskaupstaðar með 1.150 tonn sl. miðvikudag og þá var verið að ljúka við að vinna rúmlega 1.500 tonn úr Beiti NK. Í morgun var síðan Vilhelm Þorsteinsson EA kominn til hafnar með 1.650 tonn og þá voru skipin byrjuð að setja afla um borð í Barða NK. Vinnslan í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar er því samfelld og einungis gert hlé á henni til að þrífa. Fiskurinn sem skipin færa að landi er mjög stór eða um og yfir 600 grömm og er hann fullur af átu. Átan í fiskinum gerir það að verkum að ekki er unnt að heilfrysta hann heldur er hann annaðhvort hausaður eða flakaður.
Fréttir herma að makrílveiði sé heldur að glæðast í Smugunni en þar eru grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak að veiðum.