Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í morgun með 2370 tonn af síld. Ljósm. Smári Geirsson

Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í morgun með 2.370 tonn af norsk – íslenskri síld. Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri segir að veiðarnar hafi gengið vel. „Við fengum aflann út af Glettingnum innarlega á Héraðsflóanum. Það var mikið af síld að sjá þarna í gær. Við tókum fjögur hol og var dregið frá einum og hálfum og upp í þrjá tíma. Það var afar gott veður og það er virkilega gaman að sinna veiðunum í svona veðri. Það var fyrirhafnarlítið að ná þessum afla og mér líst svo sannarlega vel á framhaldið. Síldin er á sama stað og hún hefur verið undanfarin haust,“ segir Guðmundur.

Afli Vilhelms Þorsteinssonar fer að þessu sinni til lýsis- og mjölframleiðslu en verið er að þrífa fiskiðjuverið og undirbúa frekari móttöku síldar þar. Barði NK er að koma á síldarmiðin og má reikna með að hann komi til löndunar á morgun.