Gott síldarhol. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Barði NK kom inn til Neskaupstaðar í morgun með tæplega 1.300 tonn af síld. Löndun hófst strax og er síldin unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði hann hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Það gekk vel að veiða en veðrið truflaði veiðarnar umtalsvert. Við vorum að veiðum syðst í Héraðsflóadýpinu og alveg út að Glettinganestotu. Það var í reyndinni leiðindabræla allan tímann. Við tókum fyrsta holið aðfaranótt laugardagsins en síðan var ekki annað tekið fyrr en á laugardagskvöld vegna veðursins. Tvö hol voru síðan tekin í gær. Við fengum 480 tonn í fyrsta holinu, 380 tonn í því næsta og í holunum í gær fengust 200 og 230 tonn. Það er dálítið af íslenskri sumargotssíld í þessu hjá okkur eða tæplega 270 tonn. Nú hafa fleiri skip hafið síldveiðarnar en þau voru öll töluvert norðar en við eða í Bakkaflóadýpinu. Þau eru án efa að forðast íslensku sumargotssíldina en það er líklega minna um hana þarna norðurfrá. Það var víða svolítið að sjá af síld og alls ekki erfitt að eiga við hana. Þetta lítur bara vel út eins og er,“ segir Runólfur.