Ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergur VE hafa allir verið að veiðum fyrir austan land að undanförnu. Þeir hafa mest veitt á Gerpisflakinu. Gullver landaði tæpum 100 tonnum á Seyðisfirði í gær og Vestmannaey og Bergur landa 60 tonnum hvor í Neskaupstað í dag. Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver segir að það hafi verið fínasti afli á Gerpisflakinu og reyndar hafi þeir einnig veitt á Glettinganesflaki. “Þetta er mest þorskur og ýsa. Við fórum suður eftir og reyndum við karfa en það gekk treglega,” segir Þórhallur. Gullver hélt til veiða á ný að löndun lokinni.
Bergur kom til Neskaupstaðar sl. nótt eftir að hafa veitt í um tvo sólarhringa á Gerpisflaki. Jón Valgeirsson skipstjóri er ánægður með þennan stutta túr. “Þetta er fínasti afli og það eru ansi mörg skip við þessar veiðar hér eystra núna. Það hefur verið gott veður hérna þar til í gær en þá gerði skítabrælu,” segir Jón.
Vestmannaey kom til löndunar í morgun. Egill Guðni Guðnason skipstjóri tekur undir með Jóni og segir að aflinn eystra hafi verið góður. “Það getur enginn kvartað eftir að hafa aflað um 60 tonn á innan við tveimur sólarhringum. Við fengum þennan afla mest á Gerpisflaki og í Norðfjarðardýpinu,” segir Egill Guðni.
Bergur og Vestmannaey munu halda á ný til veiða í kvöld.