Landað úr Gullver NS á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Gullver NS kom til Seyðisfjarðar á mánudagsmorgun að lokinni veiðiferð. Aflinn var 106 tonn og var hann blandaður, mest ýsa, þorskur og karfi. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að túrinn hafi gengið vel. „Við vorum á okkar hefðbundnu miðum og það gekk bara ágætlega. Við byrjuðum í Berufjarðarálnum og síðan var farið í karfa í Lónsdýpinu. Þá var veidd ýsa á Stokksnesgrunni og svo kláruðum við í Litladýpinu. Það var dálítill kaldi til að byrja með í túrnum en síðan var gott veður. Nú eru þrír túrar framundan hjá okkur í þessum mánuði en síðan verður stoppað frá 25. júlí til 9. ágúst. Í ágúst verða væntanlega einnig farnir þrír túrar en þá er komið að því að skipið fari í slipp,“ segir Þórhallur.

Vegna sumarlokunar frystihússins á Seyðisfirði fór ekkert af afla Gullvers til vinnslu þar að þessu sinni. Gullver mun halda á ný til veiða á föstudag.