Vestmannaey VE búin að gera það gott í vikunni.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Togararnir hafa verið að gera það gott í vikunni og eru þeir að landa víða. Gullver NS landaði síðastliðinn mánudag á Seyðisfirði í fyrsta sinn eftir slipp. Aflinn var 82 tonn, þar af var mest af þorski eða 69 tonnum. Það þurfti að sigla stutt á miðin þar sem aflinn fékkst allur út á Glettinganesflaki. Gullver hélt strax aftur til veiða og er að landa á Seyðisfirði í dag 75 tonnum, þar af eru 35 tonn þorskur og 33 tonn ýsa. Fiskurinn fékkst á svipuðum slóðum á Glettinganesflaki. Í samtali við tíðindamann heimasíðunnar sagði Þórhallur Jónsson skipstjóri „Þetta verður ekki mikið betra en þetta, allt fullt af stórum og flottum fiski við bæjardyrnar“ Vestmannaey landaði í Neskaupstað á mánudaginn 60 tonnum af þorski og ýsu sem fékkst í Berufjarðarálnum.

Vestmannaey er að landa 72 tonnum á Djúpavogi í dag en þeir voru á veiðum á Gerpisflakinu þennan túrinn. Í samtali við heimasíðuna sagði Egill Guðni skipstjóri „Það er mikill fiskgengd fyrir austan um þetta leiti og er fiskurinn stór og fallegur“. Bergur hefur verið á veiðum við sunnanvert landið þessa vikuna og lönduðu þeir 70 tonnum í Vestmannaeyjum síðastliðinn sunnudag, það var mest þorskur, ýsa og koli sem veiddist við Pétursey og Höfða.

Bergur landaði svo í gær 66 tonnum í Grindavík og var uppistaða aflans gullkarfi og ufsi sem veiddust við Eldey og Fjöllunum. Bergur hélt strax til veiða og eru þeir komnir á Pétursey og náði tíðindarmaður heimasíðunnar tali á Jóni Valgeiri skipstjóri í morgunsárið „þetta hefur verið flott vika og veiðar gengið vel. Við fórum út á Reykjanesið og sóttum gullkarfa og var lítið fyrir honum haft enda mikið af karfa. Við erum núna komnir við Eyjar að reyna við þorsk og ýsu“.