Beitir NK á kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas KárasonSíðustu daga hefur verið góð kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni . Bátarnir sem veiða fyrir fiskimjöls- og lýsisframleiðslu hafa verið að fá góð hol og vinnsluskipin hafa átt auðvelt með að fá hæfilegt magn fyrir vinnsluna eftir að hafa togað í tvær til fjórar klukkustundir. Polar Amaroq, sem nú er að landa um 360 tonnum af frystum kolmunna í Neskaupstað, var að veiðum suðvestur af meginflotanum en þar fékkst heldur stærri fiskur sem hentaði betur til vinnslu. Að sögn Geirs Zoega skipstjóra á Polar Amaroq var tiltölulega jöfn  veiði á vestursvæðinu, en á austursvæðinu var verulegur munur á dag- og næturveiði.

Færeyska skipið Fagraberg landaði í gær fullfermi eða um 3000 tonnum á Seyðisfirði og Birtingur er að landa þar fullfermi í dag. Birtingur fékk aflann, 1750 tonn, í einungis fjórum tíu tíma holum að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra. Sagði Tómas að þeir hefðu fært sig suður fyrir það svæði sem flest skipin voru á og þar fiskaðist afar vel. „Það bendir allt til þess að verulegt magn af fiski sé nú að ganga inn í færeysku lögsöguna að sunnan “, sagði Tómas.

Börkur hélt til veiða í gær eftir að hafa landað fullfermi í Neskaupstað og Beitir lauk einnig við að landa þar fullfermi síðastliðna nótt. Þá er Hákon að landa fullfermi af frystum kolmunna í frystigeymslurnar í Neskaupstað og 1200 tonnum til fiskimjöls- og lýsisframleiðslu.

Bjarni Ólafsson er lagður af stað af miðunum með fullfermi.

Um þessar mundir hafa Síldarvinnsluskipin lokið við að veiða helming kolmunnakvótans á yfirstandandi vertíð.