Börkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Hákon ErnusonBæði Beitir NK og Börkur NK héldu til kolmunnaveiða hinn 5. apríl sl. Segja má að veiðin hjá skipunum hafi verið góð og er Börkur væntanlegur til Neskaupstaðar á miðnætti með 2300 tonn. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki og forvitnaðist um veiðiferðina. „Það má segja að þetta hafi gengið ágætlega hjá okkur en við vorum að veiða suðaustast í færeysku lögsögunni. Við toguðum frá 10 og upp í 25 klukkutíma og aflinn fékkst í einum sex holum. Í hverju holi fengum við á bilinu 350-500 tonn og það verður að teljast þokkalegt. Staðreyndin er sú að fiskurinn hefur ekki enn gengið af neinum krafti að sunnan og inn í færeysku lögsöguna en það mun án efa gerast á næstu dögum. Tvö síðustu árin hefur veiðin hjá íslensku skipunum hafist af krafti 13. apríl og ætli það gerist ekki einnig í ár. Það var athyglisvert að við vorum að fá ágætis afla í engu lóði eins og til dæmis í síðasta holinu, en stundum er þetta svona,“ sagði Hjörvar.
 
Sturla Þórðarson skipstjóri á Beiti tók undir með Hjörvari og sagði að veiðin gengi vel en enn væri beðið eftir að fiskurinn gengi af krafti inn í færeysku lögsöguna að sunnan. Beitir er kominn með 1600 tonn í fimm holum  en togað er frá 10 tímum og allt upp í sólarhring.