Bæði Beitir NK og Börkur NK héldu til kolmunnaveiða hinn 5. apríl sl. Segja má að veiðin hjá skipunum hafi verið góð og er Börkur væntanlegur til Neskaupstaðar á miðnætti með 2300 tonn. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki og forvitnaðist um veiðiferðina. „Það má segja að þetta hafi gengið ágætlega hjá okkur en við vorum að veiða suðaustast í færeysku lögsögunni. Við toguðum frá 10 og upp í 25 klukkutíma og aflinn fékkst í einum sex holum. Í hverju holi fengum við á bilinu 350-500 tonn og það verður að teljast þokkalegt. Staðreyndin er sú að fiskurinn hefur ekki enn gengið af neinum krafti að sunnan og inn í færeysku lögsöguna en það mun án efa gerast á næstu dögum. Tvö síðustu árin hefur veiðin hjá íslensku skipunum hafist af krafti 13. apríl og ætli það gerist ekki einnig í ár. Það var athyglisvert að við vorum að fá ágætis afla í engu lóði eins og til dæmis í síðasta holinu, en stundum er þetta svona,“ sagði Hjörvar.
Sturla Þórðarson skipstjóri á Beiti tók undir með Hjörvari og sagði að veiðin gengi vel en enn væri beðið eftir að fiskurinn gengi af krafti inn í færeysku lögsöguna að sunnan. Beitir er kominn með 1600 tonn í fimm holum en togað er frá 10 tímum og allt upp í sólarhring.