Lodna jan 2014Loðnan sem veiðst hefur að undanförnu við suðausturland hefur verið góð. Birtingur NK landaði í Neskaupstað 1.400 tonnum í gær og voru fryst um 500 tonn úr farmi hans. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu var þarna um mjög góða loðnu að ræða og var hún bæði fryst á Japan og Rússland. „Þessi loðna er sambærileg þeirri sem við fengum fyrst á vertíðinni“, sagði Jón Gunnar. „ Hún flokkaðist afar vel og hrognafyllingin var 18% þannig að unnt var að frysta á Japan. Japanirnir sem hér eru til að fylgjast með framleiðslunni voru yfir sig ánægðir og brostu út að eyrum. Nú skiptir bara máli að veður verði gott á miðunum og vel veiðist því loðnan er ekki hæf til Japansfrystingar í marga daga“.
 
Í gærmorgun náðu skipin einungis að kasta einu sinni til tvisvar á miðunum áður en að brældi. Loðnan gengur hratt vestur með suðurströndinni og var komin á Hálshraunið austan við Hrollaugseyjar í morgun en þar er erfitt að eiga við hana vegna hraunbotnsins sem getur leikið næturnar illa. Einhver skip voru þó byrjuð að kasta í morgun í þokkalegu veðri.