Börkur NK með kast á síðunni á nýliðinni loðnuvertíð. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBörkur NK með kast á síðunni á nýliðinni loðnuvertíð. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonLoðnuvertíðinni sem lauk fyrir skömmu er gjarnan lýst sem góðri en óvenjulegri og erfiðri. Útgefinn kvóti var tiltölulega mikill og markaðsverð á ýmsum afurðum hátt. Loðnan hélt sig hins vegar óvenju lengi fyrir norðan land og göngumynstur hennar telst vart hefðbundið. Þá þétti hún sig lengi vel illa og veðurfarið á vertíðinni var erfitt; vetrarlægðirnar komu hver á fætur annarri að vestan með tilheyrandi brælum og leiðindum. Að því kom að loðnan þétti sig úti fyrir suðausturlandi og eftir það fiskaðist vel þegar veður leyfði. Þá kom vestanganga undir lok vertíðar og gerði sitt gagn eins og stundum áður.
 
Reikna má með að verðmæti loðnunnar sem veiddist á vertíðinni og var unnin hér á landi nemi um 27 milljörðum króna og munar um minna fyrir íslenskt þjóðarbú. Alls var úthlutað 390 þúsund tonnum til íslenskra loðnuskipa á vertíðinni og er það mikil breyting frá síðasta ári þegar úthlutaður kvóti þeirra nam einungis rúmlega 127 þúsund tonnum.
 
Afli skipa Síldarvinnslunnar á vertíðinni var sem hér segir:
                    Birtingur     12. 688 tonn
                    Beitir           15.674 tonn
                    Börkur         22.882 tonn
 
Samtals veiddu skipin því 51.244 tonn.
 
Alls tók Síldarvinnslan á móti 138.230 tonnum af loðnu á vertíðinni ef með eru talin 2.050 tonn af sjófrystum afurðum sem vinnsluskipið Hákon landaði í frystigeymslur fyrirtækisins í Neskaupstað. Eru þetta mikil viðbrigði frá síðustu vertíð en þá tók Síldarvinnslan á móti 45.000 tonnum.
 
Alls voru fryst 12. 105 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði á vegum Síldarvinnslunnar. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuveri fyrirtækisins í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ.
 
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku samtals á móti 124.151 tonni af loðnu á vertíðinni. Móttekin loðna hverrar verksmiðju var sem hér segir:
                        Neskaupstaður  58.800 tonn
                        Seyðisfjörður      36.021 tonn
                        Helguvík              29.330 tonn