Beitir NK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ViðarssonUm síðustu helgi lágu makrílveiðar niðri á miðunum úti fyrir Austurlandi vegna leiðindaveðurs. Veðrið gekk niður á þriðjudag og þá hóf Bjarni Ólafsson AK veiðar. Tók skipið tvö hol og kom til löndunar í Neskaupstað í gærdag með um 250 tonn. Beitir NK kom síðan til löndunar sl. nótt með 560 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti um veiðiferðina: „Það hefur fiskast býsna vel eftir að brælunni lauk,“ sagði Tómas. „Við fengum þessi 560 tonn í þremur holum. Um er að ræða hreinan makríl og er þetta stór og góður fiskur. Við vorum að veiðum í Holunni sem er um 40 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni en Bjarni Ólafsson var að veiðum á sömu slóðum.“

Beitir hefur nú fiskað um 5.200 tonn af makríl á yfirstandandi vertíð.