Polar Princess partrollar með Polar Amaroq í grænlensku lögsögunni  Ljósm. Geir ZoëgaPolar Princess partrollar með Polar Amaroq í
grænlensku lögsögunni Ljósm. Ólafur Sigurðsson
Eins og fram hefur komið hófst makrílvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hinn 1. agúst sl. en þá kom Beitir NK með afla sem fékkst vestur af Vestmannaeyjum og á Papagrunni. Börkur NK kom síðan til löndunar sl. nótt með 550 tonn sem fengust fyrir vestan. Makríllinn virðist helst halda sig djúpt vestur af landinu og þar er góð veiði um þessar mundir. Bæði Beitir og Bjarni Ólafsson AK stefna nú hraðbyri á þau mið.
 
Eðlilega eru menn eystra ósáttir við hvar makríllinn heldur sig um þessar mundir en reiknað er með að hann færi sig á nálægari mið með tímanum. 
 
Grænlenska skipið Polar Amaroq hefur verið að makrílveiðum í grænlenskri lögsögu frá því í lok júní en Polar Amaroq partrollarar með Polar Princess. Heimasíðan sló á þráðinn til Geirs Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq og spurði hann hvernig vertíðin hefði gengið. „Vertíðin hefur gengið afar vel hjá okkur það sem af er og við erum nú að landa fullfermi af frystum makríl í fjórða sinn. Það hefur verið mjög mikið af makríl í grænlensku lögsögunni og hann er nú að ganga yfir í íslenska lögsögu vestur af landinu. Þar er nú mokveiði beggja vegna línunnar. Það verður spennandi að sjá hvert makríllinn gengur síðan. Mun hann ganga norður fyrir eða suður fyrir landið? Það veit í reynd enginn. Þetta er stór og góður makríll en það er töluverð áta í honum. Við á Polar Amaroq erum afar sáttir við vertíðina hingað til. Við erum búnir að veiða meira en alla vertíðina í fyrra. Þetta hefur sannast sagna verið alger veisla,“ segir Geir Zoëga.