Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær með 840 tonn af makríl sem fékkst að mestu fyrir vestan Vestmannaeyjar. Að sögn Jóns Más Jónssonar framkvæmdastjóra landvinnslu hjá Síldarvinnslunni er fiskurinn sem Beitir kom með fínn til vinnslu miðað við árstíma. Þá sagði Jón að það væri fagnaðaefni að fá svona góða veiði og nú væri vonandi ekkert því til fyrirstöðu að vertíðin færi af stað af alvöru. „Svona á þetta að vera- góð veiði og fínt hráefni,“ sagði Jón.
Bjarni Ólafsson AK er á landleið til Neskaupstaðar með 640 tonn en aflann fékk hann í þremur holum vestan við Eyjar. Runólfur Runólfsson skipstjóri sagði að veiðin þarna hefði verið mjög góð fram að hádegi í gær en þá hefði heldur dregið úr henni, mikil hreyfing væri á fiskinum. Bjarni Ólafsson mun koma til Neskaupstaðar í fyrramálið og löndun úr honum hefjast strax og lokið verður við að vinna úr Beiti.
Börkur NK hélt til makrílveiða í nótt.