Fiskiðjuver og frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson

Mjög góð makrílveiði hefur verið á Austfjarðamiðum undanfarna daga og hefur fiskiðjuver Síldarvinnslunnar verið á fullum afköstum. Bjarni Ólafsson AK kom með rúm 400 tonn af makríl á sunnudaginn, daginn eftir kom Beitir NK með um  500 tonn og í morgun kom Börkur NK með 460 tonn til vinnslu. „Mjög góð veiði er í Hvalbakshallinu og fengum við aflann í fjórum holum. Þetta er allt saman hreinn makríll“ segir Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki NK.

Á morgun er von á Bjarna Ólafssyni AK til löndunar og að því loknu verður fiskiðjuverið þrifið. Stafsmönnum fiskiðjuversins verður svo gefið frí frá laugardegi til mánudags til að taka þátt og njóta glæsilegrar dagskrár Neistaflugs sem fer fram í Neskaupstað um helgina.