Nóg hefur verið að gera við vinnslu síldar í fiskiðjuverinu að undanförnu. Ljósm. Hákon Viðarsson.Lokið var við að landa rúmlega 600 tonnum af síld í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar úr Beiti NK sl. miðvikudag og þá hófst þegar löndun úr Berki NK sem kominn var að landi með rúmlega 1000 tonn. Beitir fékk sinn afla austan við 10. gráðu eða um 130 mílur frá Norðfirði. Á þeim slóðum var ekki sérlega mikið af síld að sjá. Börkur var hins vegar að veiðum á Glettinganesflaki, um 35 mílur frá Norðfirði. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki var þar afar góð veiði undir lok túrsins. Sem dæmi fengust liðlega 500 tonn í síðasta holinu en þá var togað í rúmlega eina klukkustund.

Löndun úr Berki lauk í morgun og mun starfsfólk fiskiðjuversins fara í kærkomið helgarfrí þegar það hefur lokið við að þrífa verið hátt og lágt. Gert er ráð fyrir að Beitir haldi til veiða í kvöld og Börkur á morgun þannig að vinnsla hefjist á ný í fiskiðjuverinu strax eftir helgina.

Nú er eftir að veiða um 3.500 tonn af kvóta Síldarvinnslunnar í norsk-íslensku síldinni.