Aflinn ísaður um borð í Bjarti NK.  Ljósm. Þorgeir Baldursson Ísfisktogarinn Bjartur NK kom inn úr veiðiferð á miðvikudagskvöld. Aflinn var um 90 tonn, mest þorskur. Veiðislóðin var sú sama og að undanförnu; á Fætinum og vestur í Hvalbakshall. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri var ánægður með fiskiríið og sagði eftirfarandi í viðtali við heimasíðuna: „Þarna er búinn að vera nægur fiskur alllengi og það liggur við að við förum þarna og sækjum þann skammt sem okkur er ætlað að taka í hverri veiðiferð. Núna vorum við tvo daga að veiða í skipið og reyndar hefðum við getað tekið styttri tíma í það. Fiskurinn er hins vegar stærri núna en hann hefur verið að undanförnu og uppistaða aflans er þorskur sem er yfir þrjú kíló. Þetta er fallegur og góður fiskur sem hentar vel til vinnslu. Nú er ráðgert að halda til veiða á ný í fyrramálið og áformað að koma inn til löndunar á þriðjudag.“