Ísfisktogarinn Gullver NS landaði á Seyðisfirði í gær. Aflinn var 105 tonn, uppistaðan þorskur en einnig dálítið af ufsa, ýsu og karfa. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvort auðvelt væri að finna þorskinn um þessar mundir. „Það hefur ekki verið þannig, en það virðist vera að breytast núna. Þorskurinn hélt sig á takmörkuðu svæði hér eystra, aðallega á Glettinganesflaki og Tangaflaki en nú er hægt að nálgast hann víðar. Það er ekki ósennilegt að síldin hérna út af Austfjörðunum hafi áhrif á hegðun þorskins. Annars hefur okkur gengið ágætlega að ná í þorsk og það hefur verið dálítið af ýsu í bland við hann, en erfiðlega hefur hins vegar gengið að finna ufsann. Þessi túr var ekki langur eða tæpir fjórir sólarhringar höfn í höfn. Við byrjuðum í Lónsbugtunni, vorum síðan lítilsháttar í Berufjarðarál en megnið af þorskinum var tekið í Seyðisfjarðardýpinu. Veðrið hefur verið indælt að undanförnu og segja má að þetta hafi almennt verið þægilegt,“ segir Steinþór.