Síðastliðið vor réði Síldarvinnslan rúmlega 50 sumarstarfsmenn til starfa í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Flestir þessara starfsmanna voru á aldrinum 18-20 ára og stunduðu þeir vaktavinnu á makríl- og síldarvertíðinni. Um þessar mundir eru sumarstarfsmennirnir að láta af störfum enda skólar að byrja og ný verkefni að komast á dagskrá.
Til að forvitnast um viðhorf þessara ungu sumarstarfsmanna til starfanna í fiskiðjuverinu voru tveir þeirra teknir tali. Fyrir valinu urðu Smári Björn Gunnarsson og Lilja Tekla Jóhannsdóttir en þau eru bæði fædd á árinu 1995 og eru á þriðja námsári í Verkmenntaskóla Austurlands.
Smári sagði að sér hefði líkað sumarvinnan vel en þó hefði komið í ljós að vaktavinna ætti ekki sérlega vel við sig. Sérstaklega fannst honum næturvaktirnar erfiðar og langar. Á vinnustaðnum hefði ríkt góður andi og félagsskapurinn verið skemmtilegur.
Lilju Teklu féll aftur á móti vaktavinnan vel og sagði að sér hefði reynst létt að aðlaga sig að vinnuskipulaginu. Þá sagði Lilja að vinnan hefði í sjálfu sér ekki verið erfið en langvarandi stöður við færibönd hefðu hins vegar verið þreytandi fyrir sig. Þá tók hún undir með Smára og sagði að vinnufélagarnir hefðu verið góðir og starfsandinn eins og best verður á kosið.
Bæði Smára og Lilju Teklu var tíðrætt um launin sem þau voru sammála um að væru frábær. Fram kom hjá þeim að launin fyrir júlímánuð hefðu verið á milli 500-600 þúsund krónur og víst væri að flestir jafnaldrar þeirra á landinu dauðöfunduðu þau af þeim. Fram kom að makríl- og síldarvertíðin hefði hafist heldur seinna í ár en síðastliðin ár og því hefði vaktavinna ekki hafist fyrr en um mánaðamótin júní-júlí og sumarlaunin væru því heldur lægri en að undanförnu. Þau voru sammála um að nauðsynlegt væri að borga vel fyrir þessa vinnu því þeir sem sinntu henni gætu ekki fengist við neitt annað á meðan; íþróttastarf og annað félagslíf væri varla á dagskrá hjá þeim sem réðu sig í sumarvinnu í fiskiðjuverið.