Trollið tekið um borð í Barða NK. Ljósm: Snorri Gunnarsson
Góð veiði hefur verið undanfarna daga hjá skipum Síldarvinnslunnar og dótturfélaga bæði á botnfiskveiðum sem og uppsjávarveiðum.
Kolmunnaveiðar hafa gengið vel og var floti Síldarvinnslunnar ýmist á landleið eða að landa um helgina. Beitir NK landaði í gær á Seyðisfirði um 3000 tonnum af kolmunna og Bjarni Ólafsson AK landaði fullfermi í Neskaupstað. Þá landaði Vilhelm Þorsteinsson EA fullfermi í Neskaupstað og Hákon EA er nú að landa fullfermi á Seyðisfirði. Börkur NK er að landa um 2200 tonnum í Neskaupstað. Öll þessi skip halda aftur til veiða í færeysku lögsögunni að löndun lokinni.
Gullver NS kom í land í gær á Seyðisfirði og hófst löndun í morgun. Uppistaðan er þorskur og ufsi sem fer til vinnslu á Seyðisfirði og karfi sem fer í útflutning með Norrænu.
Bjartur NK kom í land í morgun í Neskaupstað og er uppistaðan líkt og hjá Gullver þorskur, ufsi og karfi. Ufsinn úr Bjarti NK er nú unninn í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.
Barði NK hefur verið við veiðar við suðurlandið í mikilli blíðu og sendu skipverjar heimasíðunni þessa skemmtulegu mynd af því þegar trollið var tekið í gær, var aflinn um 3,5 tonn af fallegri ýsu.
Af Vestmannaeyjaskipunum er það að frétta að bæði Bergey og Vestmannaey lönduðu fullfermi á laugardag eftir aðeins 2 og hálfan dag á veiðum. Héldu þau strax aftur til veiða að löndun lokinni.