Veiðar makrílskipanna sem landa til vinnslu í Neskaupstað hafa gengið vel að undanförnu. Skipin eru að veiðum út af Austfjörðum en stundum er afli þeirra síldarblandaður. Á laugardag var lokið við að landa um 1000 tonnum úr Berki NK og í gær lauk löndun úr Bjarna Ólafssyni AK sem var með 800 tonn. Í kjölfar þeirra kom Beitir NK til löndunar með 675 tonn. Vinnslan í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur gengið afar vel eftir að makrílveiðar hófust og hefur starfsfólkið staðið sig með einstakri prýði. Ráðgert er að loka fiskiðjuverinu yfir verslunarmannahelgina og fær starfsfólkið þá vel þegið frí.
Börkur NK er nú að veiðum í Berufjarðarál og sagði Sturla Þórðarson skipstjóri að þessa stundina væri ekki mikið að sjá. „Þetta hefur verið heldur rólegt. Við erum að dæla núna og ég vonast til að við verðum komnir með 600 tonn þegar því er lokið. Þennan afla höfum við þá fengið í þremur holum. Við keyrðum í alla nótt og leituðum og köstuðum síðan í morgun. Við höfum frétt af smærri bátum sem hafa verið að fá makríl á Lónsbugtinni miklu nær landi eða á 12 mílunum. Það er víða makríll en stundum þarf að hafa fyrir því að finna hann í verulegu magni,“ sagði Sturla.