Gullver NS á miðunum. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði í morgun. Aflinn var 120 tonn, mest þorskur og ýsa. Gullver hefur aflað vel að undanförnu og er Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri býsna ánægður með veiðina. „Þetta var með því betra. Við vorum núna innan við þrjá sólarhringa að veiðum. Það hefur ræst vel úr veiðinni að undanförnu en áður hafði hún verið heldur slök í nokkurn tíma. Við vorum á Glettinganesflakinu allan tímann og það virðist hafa aukist verulega fiskgengd þarna á Glettingi upp á síðkastið. Nú höfum við fengið um 180 tonn á um fimm sólarhringum því við lönduðum rúmlega 60 tonnum á föstudag eftir að hafa verið sólarhring á veiðum. Fiskurinn sem þarna fæst er súperfiskur. Þetta fær menn til að horfa björtum augum fram á veginn,“ segir Rúnar.

Gert er ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný síðdegis á morgun.

Sömu sögu er að segja af Bergey VE. Skipið kom til Neskaupstaðar í nótt með fullfermi eða 75-80 tonn. Jón Valgeirsson skipstjóri er sáttur við aflabrögðin. „Í þessum túr hófum við veiðar á Víkinni en stoppuðum þar stutt. Eftir það lá leiðin í Sláturhúsið en þar var einnig stutt stopp. Þá var haldið á Glettinganesflak og þar fékkst fínasti afli, mest stór og góður þorskur. Þetta lítur vel út eins og er og við reiknum með að landa í Neskaupstað á ný á fimmtudag. Það er bara bjart yfir þessu,“ segir Jón.

Bergey mun halda til veiða strax að löndun lokinni.