Sl. miðvikudag lönduðu bæði Vestmannaey VE og Bergur VE fullfermi í Vestmannaeyjum eftir stutta veiðiferð. Skipin lögðu stund á veiðar á sömu miðum og hafði heimasíðan samband við Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey, og spurði nánar út í veiðiferðina. „Þetta var afar stutt veiðiferð. Við vorum einungis að veiðum í um það bil sólarhring en það tók drjúgan tíma að sigla á miðin og síðan til baka að veiðum loknum. Bæði skipin héldu til veiða sl. sunnudag. Við tókum eina sköfu á Víkinni en síðan var haldið rakleiðis austur á Mýragrunn. Þar voru tekin tvö hol en þar fékkst einungis ýsa. Þá var haldið austur á Stokksnesgrunn og þar var hörkuveiði. Þarna fengum við ufsa í fyrstu holunum, en síðan varð aflinn blandaður. Þetta var mjög góður fiskur og ufsinn var þarna að eltast við síld. Þegar fréttist af góðri veiði á Stokksnesgrunni komu þangað fjölmörg skip en veislunni lauk fljótt. Ýsa flæddi yfir svæðið og það eru allir að reyna að forðast ýsuna. Ýsugengd er mikil en menn eru búnir með ýsukvótann eða við það að klára hann og eru í bölvuðum vandræðum. Hins vegar gengur erfiðlega að ná ufsakvótanum,“ segir Birgir Þór.
Vestmannaey og Bergur munu halda til veiða á ný síðdegis í dag.