Bergey VE. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

Ísfisktogarinn Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Aflinn var blandaður; ýsa, þorskur, lýsa og dálítill ufsi. Heimasíðan hafði samband við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði hvar aflinn hefði fengist. “Við fengum ýsu og lýsu í Skeiðarárdýpinu en þorskinn og ufsann á Víkinni. Það var skítabræla, vestanfýla allan túrinn. Við fórum út að lokinni löndun klukkan sex síðdegis í gær og við erum búnir að fá fínasta afla í nótt. Nú er alger blíða en á morgun spáir hann suðaustan hvelli með haugasjó og ógeði. Við þurfum helst að vera búnir að fylla áður en brælir. Það virðist vera skítaveðrátta framundan og það á að vera lurkur í honum fram yfir helgina,” segir Jón.