Áhöfn Gullvers æfði notkun léttabáts við björgunarstörf í morgun. Ljósm. Valgarður Freyr Gestsson

Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði að lokinni veiðiferð í morgun. Aflinn var 111 tonn, mest þorskur og ýsa. Að sögn Hjálmars Ólafs Bjarnasonar skipstjóra var víða veitt. “Við byrjuðum á Flugbrautinni fyrir vestan og fengum þar góðan afla. Ljóst var að við myndum landa í heimahöfn á Seyðisfirði og var þá haldið austur og veitt víða á leiðinni. Veitt var á Tánni, Síðugrunni, Öræfagrunni, Mýragrunni, Stokksnesgrunni og endað á Lúlla og Lovísu. Það var fínasta veður allan túrinn,” segir Hjálmar Ólafur.

Snemma í morgun efndi áhöfnin á Gullver til björgunaræfingar á Seyðisfirði. Æfð var sjósetning og notkun léttabáts og notkun bæði Björgvinsbeltis og Markúsarnets. Gekk æfingin vel í alla staði.

Gullver mun halda á ný til veiða á fimmtudag.

Notkun Björgvinsbeltis æfð.
Ljósm. Valgarður Freyr Gestsson