Nú er makríllinn heilfrystur. Ljósm. Smári Geirsson

Nú er verið að vinna makríl úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Fiskurinn úr Vilhelm er mjög góður og er að mestu heilfrystur. Gert er ráð fyrir að vinnslu úr Vilhelm ljúki um hádegisbil og þá verður hafist handa við að þrífa fiskiðjuverið eins og gert er með reglubundnu millibili á vertíðum. Barði NK mun síðan koma til Neskaupstaðar í dag með 1.340 tonna makrílfarm og mun vinnsla á honum hefjast strax að þrifum loknum í kvöld. Þá er Hákon EA að landa rúmlega 600 tonnum af frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í dag.

Skipin sem landa hjá Síldarvinnslunni og eru í veiðisamstarfi toguðu í gær í 8 – 11 tíma og var afli þeirra misjafn eða frá 130 tonnum og upp í 480 tonn. Alls var dælt tæplega 1.000 tonnum um borð í Barða í gærdag.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að fiskurinn, sem nú er verið að vinna úr Vilhelm, sé sá besti sem borist hefur á vertíðinni. „Í honum er lítil áta og hann er mjög gott hráefni. Þetta er besti farmurinn sem við höfum fengið til vinnslu á vertíðinni og erum við að heilfrysta á fullu. Það er átumagnið sem skiptir mestu. Þegar átan minnkar verður hráefnið betra. Vonandi verður þetta svona áfram,“ segir Geir Sigurpáll.