Vestmannaey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði nánast fullfermi í Neskaupstað í gær og Gullver NS landar á Seyðisfirði í dag ríflega 120 tonnum. Það hefur almennt verið góður afli eystra að undanförnu. 

Tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey í morgun en þá var skipið að veiðum í Breiðamerkurdýpinu. „í síðasta túr vorum við mest að veiða á Breiðdalsgrunni rétt sunnan við Norðmennina sem eru að veiða loðnuna. Það var mikið líf þarna og það virðist vera loðna víða. Ég fékk núna fréttir af loðnu úti í Hvalbakshalli og Hornfirðingarnir segja að það sé mikið af loðnu að sjá í Lónsbugtinni. Í síðasta túr vorum við mest með ýsu og þorsk en það virðist vera ýsa allsstaðar,“ segir Egill Guðni. 

Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri á Gullver var ánægður með túrinn. „Þetta er stærsti túr hjá okkur í langan tíma en aflinn var mest þorskur og ýsa. Við vorum aðallega að veiða í Hvalbakshallinu, á Fætinum og svo fórum við suður í Berufjarðarál,“ segir Rúnar. 

Gullver heldur á ný til veiða klukkan fjögur í dag.