Í desember komu í heimsókn til okkar félagar úr Félagi eldriborgara í Neskaupstað og var þá einmitt verið að vinna síld til frystingar úr Berki NK-122. Vel var tekið á móti gestunum og þeim boðið upp á kaffi, síldarrétti o.fl. Eftir kaffisopann var farið í litlum hópum í gegnum vinnsluna með stjórnendum fyrirtækisins og vinnsluferillinn útskýrður og skoðaður nákvæmlega. Þeir sem ekki treystu sér í langa skoðunarferð fengu að horfa yfir síldarvinnslusalinn og virða fyrir vinnsluna. Það kom flestum gestum okkar á óvart öll sú tækni og sjálfvirkni sem fylgir þessari vinnslu og spunnust líflegar og skemmtilegar umræður um síldarvinnslu fyrr og nú og þær miklu breytingar sem hafa orðið síðan á síldarplönunum í gamla daga.
Við hjá Síldarvinnslunni hf. þökkum kærlega fyrir heimsóknina og vonum að þetta geti orðið að reglulegum viðburði.
Hákon Viðarsson
Starfsmannastjóri