Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Áhöfnin var á öryggisnámskeiði í gær en mun síðan njóta Goslokahátíðar. Ekki verður haldið til veiða á ný fyrr en seint á sunnudag. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir að menn ætli að skemmta sér vel og hafa það huggulegt á hátíðinni. „Við tókum tvo fullfermistúra í vikunni. Fyrst lönduðum við í Þorlákshöfn og síðan í Eyjum í gær. Í fyrri túrnum var aflinn mest ýsa og þorskur sem fékkst á Pétursey, Vík, Höfðanum og Mýragrunni. Í seinni túrnum fengum við þorsk og dálítinn ufsa á Höfðanum og ýsu á Mýragrunni. Það gengur ágætlega að fiska og ástandið í hafinu suður af landinu virðist vera býsna gott. Það eina sem pirrar okkur er hve erfiðlega gengur að finna ufsann. Í gær var áhöfnin á öryggisnámskeiði hjá Gísla Níls Einarssyni, sérfræðingi í öryggismálum. Þar kynnti Gísli meðal annars öryggisstjórnunarkerfið Öldu. Menn voru mjög ánægðir með þetta námskeið. Það er í reynd aldrei of mikið af öryggisfræðslu. Næsti túr okkar er sá síðasti fyrir fjögurra vikna sumarstopp. Þegar við stoppum mun Bergur VE hefja veiðar en þá hefur hann lokið sínu sumarstoppi,“ segir Birgir Þór.